Upphafið 1972-1975

Upphaf Kraft- og Ólympískra lyftinga á Akureyri 1972-1975 (Frá mínu sjónarhorni)

Haustið 1972 leitaði gamall vinnufélagi Kjartan Sigurðsson lögreglumaður til mín og bað mig að vera ungum syni sínum Grétari Kjartanssyni innan handar við að komast á “beinu brautina”. Grétar sem þá var 19 ára togarasjómaður, hafði leiðst í nokkura óreglu en vildi nú snúa við blaðinu.

Það sem Grétar þurfti, var smá aðstoð og aðhald. Hann var að eðlisfari hraustur og kappsamur, enda hafði hann mestan hug á að reyna fyrir sér í aflraunum. Í kjallara stúku íþróttavallar Akureyrar var á þessum tíma, samsafn af léttum hópæfingalóðum, sem m.a. skíðamenn notuðu, gömul “Weider” tæki og margskonar dót úr ýmsum áttum, en þyngstu lóðin voru “heimatilbúnir” plattar fengnir beint frá skipasmíðadeild Slippstöðvarinnar.

Við Grétar fengum leyfi Hernmanns Sigtryggssonar Íþrótta og Æskulýðsfulltrúa til að nota tækin og aðstöðuna. Til að byrja með æfðum við einir, en fljótlega þegar æfingarnar spurðust út, bættust í hópinn ungir og áhugasamir strákar. (Á þessum árum þekktist vart að stúlkur stunduðu lyftingar)

Fljótlega fór skortur á þungum lóðum að há æfingunum, þá vildi svo vel til að Óskar Sigurpálsson hringdi í mig og bauð til kaups Sænskt æfingasett sem hann og Finnur Karlson voru með til sölu. Við Óskar vorum vel kunnugir frá því að við æfðum saman í gamla Ármanns heimilinu nokkrum árum áður. Ég spurði Hermann hvort Akureyrarbær væri til í að kaupa þessi tæki, en því miður voru engin fjárráð til slíkra kaupa þá stundina. Ég vildi hinsvegar ekki missa af þessu óvænta tækifæri og keypti því einfaldlega nokkur mismunandi þung lóð og stangir, prívat og persónulega.

Vegna gosins í Eyjum 1973, kom Akureyringurinn Björgvin Sigurjónsson aftur í bæinn og byrjaði að æfa með okkur, hann sá strax að þó við hefðum talsvert af lóðum, vantaði okkur sárlega löglega alþjóðlega vottuð keppnislóð og ólypíustangir. Björgvin gekk í það að fá send til Akureyrar ólympíutæki sem höfðu verið staðsett í Eyjum en hafði verið bjargað upp á meginlandið.

Með tilkomu tækjanna úr Eyjum gátum við Akureyringarnir fyrst farið að bera okkur saman við árangur annarra íslenskra lyftingamanna, og jók það enn á kraftinn í æfingunum. Þegar þarna var komið sögu, tókst Hermanni að kría út nægilegu fjármagni til að geta keypt af mér æfingatækin frá Óskari og Finni fyrir hönd Æskulýðs- og Íþróttaráðs Akureyrabæjar.

Seinna um veturinn fengum við nokkra af fremstu lyftingamönnum Íslands til að koma norður og halda lyftingasýningu í Skemmunni. Sýningin var mjög vel sótt og heppnaðist ágætlega, nema að undanteknum einum mistökum. Nýbúið var að parketleggja gólfið í Skemmunni, og til að vernda parketið, gerðum við pall úr tveim lögum af 25mm spónaplötum þar sem sjálfar lyfturnar fóru fram. Gústaf Agnarsson sem þá var einn af hæstu og öflugustu lyftingamönnum íslands, snaraði rúmum 200 kílóum, en í stað þess að fylgja lóðunum aftur niður að lyftu lokinni til að mýkja fallið, lét hann lóðin “gossa” eins hann var vanur á steingólfunum fyrir sunnan. Það er ekki að sökum að spyrja, lóðin gerðu greinilega dæld í spónaplöturnar og þegar við fjarlægðum plöturnar að sýningu lokinni, kom í ljós að parketið var líka brotið. Ég man enn hvað Hreinni Óskarssyni umsjónarmanni hússins, sárnaði hvernig farið hafði verið með nýja parketið “hans”, en það má hann eiga, að þó skapmaður væri, lét hann það ekki bitna á okkur sem að sýningunni stóðu, en bölvaði kæruleysi og asnaskap þessara “Sunnanmanna” í hljóði.

Allur lyftingahópurinn að sunnan gisti hjá mér úti á Pétursborg, þar var haldin “tröllsleg” veizla með miklum glaum og gleði, enda vissu gestirnir ekki af skemmdunum á skemmugólfinu. Það var óþarfi að varpa skugga á þessa glæsilegu sýningu þeirra.

Eftir sýninguna hljóp okkur Akureyringunum kapp í kinn, enn fjölgaði á æfingunum í stúkunni, margir nýliðar komu og prófuðu, sumir ílengdust, aðrir hurfu á baraut eins og gengur. Vorið 1974 fylgdi ég Grétari á Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum þar sem hann vann sinn þyngdarflokk og varð þar með fyrsti Íslandsmeistari Aklureyringa í kraftlyftingum.

Haustið 1974 var svo haldið fyrsta Kraftlyftingamót Akureyrar, þá var hópurinn sem æfði lyftingar orðinn það fjölmennur að húsnæðið annaði enganvegin þörfinni, og neyddust lyftingamenn því til að hrekjast úr einu húsnæðinu í annað næstu 3 árin þar til loks fékkst góð aðstaða í Lundaskóla.

Um áramótin 74/75 lést Grétar af slysförum og var það mikið áfall fyrir hópinn, en aðrir tóku við merkinu svo sem Freyr Aðalsteinsson, Guðmundur Svanlaugsson, Haraldur Ólafsson, Hjörtur Gíslason og fl. Fyrstu þrjú árin var það einkum mitt hlutverk að ýta undir áhuga og leiðbeina strákunum af þeirri takmörkuðu reynslu sem ég hafði áður öðlast á æfingum hjá Ármanni og í Íþróttakennara háskólanum í Kaupmannahöfn, sjálfur gat ég ekki æft til keppni vegna krónískra hnjámeina.

Þó tækjabúnaður og fagleg þekking hafi í upphafi verið af skornum skammti, var áhuginn engu að síður mjög mikill og margir lögðu þarna við frumstæðar aðstæður, grunninn að árangri komandi ára. Á árinu 1975 urðu síðan þáttaskil í lyftingum á Akureyri, þá fluttist í bæinn Kári Elísson íþróttamaður á heimsmælikvarða, hvort heldur var í Kraft- eða Ólympískum lyftingum.

Með komu Kára og þeirri þekkingu sem hann bjó yfir, tók kunnáttan í hverju lyftingaformi fyrir sig miklum framförum, og undir hans leiðsögn fínpússuðu menn tæknina, bæði í kraft- og ólympískum lyftingum, því Kári var “meistari” í hvorutveggja.

Þó gjarna sé horft til þeirra sem fremstir fara, í íþróttum sem og annari félagslegri starfsemi, má ekki gleyma þeim sem að baki standa en leggja engu að síður fram sinn mikilvæga skerf til að hjólin geti snúist. Lyftingamenn á Akureyri hafa frá upphafi notið margra slíkra einstaklinga að ógleymdum stuðningi Æskulýðs- og Íþróttaráðs í formi tækjakaupa í upphafi og útvegun húsnæðis til dagsins í dag.

Febrúar 2016. Vilhjálmur Ingi Árnason