Saga félagsins

Sögu félagsins má rekja aftur til ársins 1973, en það ár var haldið sýningarmót á Akureyri. Frumkvöðull og helsti hvatamaður þess að mótið væri haldið var Vilhjálmur Ingi Árnason, en auk þess komst verulegur skriður á málefni tlyftinga það sama ár, þegar Björgvin Sigurjónsson flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos og fékk send þaðan tæki og tól til iðkunar lyftinga.

Fyrsta aðstaða til æfinga var í kjallara lögreglustöðvarinnar, en síðan í ófullgerðu verslunarhúsnæði Árna Árnasonar. Mestan áhuga á iðkun þar sýndi Grétar Kjartansson (sá er Grétarsmótið er nefnt eftir). Eftir dvölina þar voru æfingar í íþróttarvallarhúsinu um skamma hríð. Við byggingu Íþróttahallarinnar við Skólastíg fékkst sérstakur salur sem nefndur var Jötunheimar og þar æfðu kraftlyftinga- og lyftingamenn þar til vorið 2013. Þegar félagið hóf starfsemi í gamla KEA lagernum í Sunnuhlíð.

Á Akureyri störfuðu lyftingamenn sameiginlega undir fána Lyftingaráðs Akureyrar, sem var stofnað 7. janúar 1975. Lyftingar og kraftlyftingar höfðu sameiginlegt sérsamband innan ÍSÍ (Lyftingasamband Íslands). Ágreiningur varð innan raða  lyftingamanna sem varð til þess að LSÍ klofnaði og stofnað var nýtt sérsamband fyrir kraftlyftingar (utan ÍSÍ).

Það var deilt um þessa ákvörðun á Akureyri og fjölmargir sögðu sig úr félaginu í kjölfarið og störfuðu sjálfstætt utan þess.  Því fór sem fór og félagið hlaut nýtt nafn Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) 16. febrúar árið 1985.

Starfsemi félagsins breyttist að því leyti að kraftlyftingamenn og lyftingamenn störfuðu  ekki lengur undir sama fána og starfaði félagið sjálfstætt utan ÍSÍ í 25 ár. Að öðru leyti  breyttist starfsemi félagsins ekkert, haldin voru regluleg mót og Jötunheimar voru ennþá sameiginleg æfingaaðstaða kraftlyftingamanna og lyftingamanna, enda þótt hallaði undan fæti í ólympískum lyftingum á Akureyri upp úr níunda áratugnum og starfsemi Lyftingafélags Akureyrar legðist af um aldamótin.

Haustið 2008 ákvað Kraftlyftingasamband Íslands að sækja um aðild að Íþrótta- og  ólympíusambandi Íslands og ákvað nýkjörin stjórn KFA að verða samferða þeim og fara aftur undir þak ÍSÍ. Vorið 2009 var stofnuð nefnd um kraftlyftingar innan ÍSÍ og gamla sambandið lagt niður. Þegar vora tók árið 2010 var Kraftlyftingasamband Íslands síðan stofnað innan ÍSÍ og kraftlyftingamenn því aftur orðnir fullgildir meðlimir Íþróttasambands Íslands. Sú ákvörðun að fylgja KRAFT og ganga í ÍSÍ hefur margsannað sig. Samfélag stálíþróttamanna á Akureyri hefur aldrei verið þéttara og er skipulögð starfsemi í lyftingum á Akureyri nú alfarið undir hatti ÍSÍ.

Á aðalfundi KFA  2011, var ákveðið að innlima starfsemi lyftingamanna á Akureyri inn í starfsemi KFA, með stofnun deildar sem vakir yfir hagsmunum ólympískra lyftingamanna Akureyri og hefja markvissa uppbyggingu íþróttarinnar.

Þeir sem stunduðu ólympískar lyftingar höfðu gert það hver í sínu horni og án nokkurrar markvissrar stefnu, því enginn hagsmunasamtök höfðu verið til staðar fyrir þá frá aldamótum. Því má segja að ekkert sé því að vanbúnaði að hefja stálíþróttir enn frekar til vegs á Akureyri og byrja markvissa uppbyggingu íþróttanna undir merkjum KFA.