Lög KFA

Lög Kraftlyftingafélag Akureyrar, samþykkt á aðalfundi 5. febrúar 2017.

Nafn, heimili, tilgangur og auðkenni félagsins

1. grein Félagið heitir Kraftlyftingafélag Akureyrar. Heimili félagsins og varnarþing er á Akureyri. Skammstöfun félagsins er KFA.

2. grein Tilgangur félagsins er: að reyna eftir mætti að vekja löngun hjá félagsmönnum til að vinna að frelsi, framförum og heill sjálfra sín og bæjarfélagsins af mannúð og réttlæti að rækta þáttakendastjórnað íþróttastarf að auka aðgengi félagsmanna á íþróttaiðkun að auka áhuga á íþrótta- og tómstundastarfi að bjóða samtengda og þverfaglega íþróttaþjónustu.

3. grein Markmiðum sínum hyggst félagið ná með virku og öflugu félagsstarfi, íþróttaæfingum, mótahaldi og framkvæmdum sem nauðsynlegar eru hverju sinni.

4. grein Allir iðkendur, stjórnarmenn deilda, KFA korthafar og starfsmenn félagsins teljast félagsmenn. Einnig getur hver sá orðið félagi, er sækir skriflega um inngöngu í félagið og gangast vill undir lög þess. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til skrifstofu félagsins, sem jafnframt sér um innheimtu félagsgjalda.

5. grein Búningur félagsins skal vera háður samþykki stjórnar hverju sinni.

6. grein Breytingar á merki félagsins eru háðar samþykki aðalfundar. Stjórnun félagsins

7. grein Aðalfundur er æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Allir félagsmenn 16 ára og eldri sem ekki skulda félagsgjöld eða önnur gjöld til félagsins, hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert. Boða skal aðalfund minnst mánaðar fyrirvara og auglýsa á sem víðtækastan hátt. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Í aðalfundarboði skal kynna dagskrá, fundartíma og fundarstað. Þá skal geta sérstaklega í fundarboði hvenær frestur til að skila inn tillögum að lagabreytingum og framboði til stjórnarsetu rennur út. Störf aðalfundar skulu vera:

1. Þingsetning.
2. Skilríki fulltrúa lögð fram.
3. Kosinn þingforseti og þingritari.
4. Ársskýrsla lögð fram, rædd og samþykkt.
5. Reikningar lagðir fram og ræddir.
6. Fjárhagsáætlun lögð fram.
7. Ársgjöld ákvörðuð.
8. Rætt um framkomnar tillögur og atkvæði greidd um þær.
9. Stjórnarkjör.
10.Kosnir endurskoðendur, tveir að tölu.
11.Kosinn einn vefstjóri fyrir Kfa.is
12.Önnur mál.
13.Þingfundargerðir lesnar og staðfestar.
14.Þingslit.

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi félagsins undir dagskrárliðnum ,,lagabreytingar” og þá með fulltingi 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna. Tillögur til breytinga á lögum félagsins, undirritaðar af flutningsmönnum, skulu sendar aðalstjórn félagsins eigi síðar en 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Sami frestur gildir um tillögur um stjórnarmenn. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála nema ef mál falla undir 4. mgr. 7. gr. laga þessara. Kosningar skulu vera skriflegar ef þess er óskað af fundarmönnum. Ef atkvæði standa á jöfnu falla mál niður. Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Þingið getur með 2/3 atkvæðum viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál, sem komin eru fram eftir að dagskrá þingsins var send félagsaðilum.

8. grein Félagsfund má halda, ef nauðsyn krefur eða helmingur félagsaðila óskar þess. Alla boðunar- og tilkynningafresti til félagsfund má hafa helmingi styttri, en til reglulegs fundar. Á félagsfundi má ekki gera laga- og leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegan aðalfund.

9. grein Stjórn KFA skipa 5 menn, formaður, varaformaður,ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Kjósa skal bundinni leynilegri kosningu til eins árs í senn. Formaður er kosinn fyrst og síðan 4 meðstjórnendur og 3 í varstjórn. Meðstjórnendur skipta með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar. Varamenn koma inn, ef aðalmenn forfallast í þeirri röð, sem þeir eru kosnir. Stjórninni er heimilt að ráða launað og ólaunað starfsfólk. Allir félagsmenn félagsins sem eru fjárráða geta boðið sig fram til formanns. Formaður félagsins getur ekki samtímis verið formaður deildar. Kjörtímabil stjórnar er á milli aðalfunda. Stjórn fer með umboð og vald aðalfundar á milli aðalfunda án heimildar til lagabreytinga. Á aðalfundi eru kosnir 2 skoðunarmenn reikninga en í þeirra stað má kjósa 1 löggiltan endurskoðanda.

10. grein Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn er ábyrg gagnvart aðalfundi fyrir fjárreiðum og eignum félagsins. Deildarstjórnir eru ábyrgar fyrir rekstri sinna deilda gagnvart stjórn og aðalfundum deilda. Reikningar félagsins skulu liggja frammi minnst viku fyrir aðalfund til skoðunar fyrir félagsmenn.

11. grein Formaður félagsins eða framkvæmdastjóri rita félagið samkvæmt undirrituðum fundarsamþykktum stjórnar. Stjórn félagsins veitir prókúruumboð og allar fjárskuldbindingar félagsins og deilda þess eru háðar samþykki prókúruhafa. Óheimilt er að skuldbinda félagið eða deildir þess með persónulegum ábyrgðum einstaklinga. Allir samningar gerðir í nafni Kraftlyftingafélags Akureyrar eða deilda þess skulu áritaðir af formanni eða framkvæmdastjóra félagsins.

12. grein Ef reikningar félagsins eru felldir í atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal fundinum slitið strax og boðað til framhaldsaðalfundar innan 4 vikna. Stjórn leggur fyrir framhaldsaðalfund nýja reikninga til samþykktar. Framhaldsaðalfund skal boða á sama hátt og aðalfund og gilda um hann sömu reglur og hefur hann sama vald og um aðalfund væri að ræða.

13. grein Stjórn tilnefnir fulltrúa félagsins á sambandsþing heildarsamtaka íþróttahreyfingarinnar. Stjórn er heimilt að skipa nefndir til starfa eftir því sem þurfa þykir.

14. grein Stjórn skiptir öllum tekjum sem ekki koma inn á svið deilda, þ.m.t. félagsgjöldum og Lotto.

15. grein Fulltrúar stjórnar hafa rétt til að sitja alla fundi félagsins og deilda þess. Stjórn skal halda samráðsfundi með formönnum deilda á minnst 3 mánaða fresti. Alla stjórnarfundi félagsins, sem og félags- og aðalfundi, skal skrá í fundargerðarbækur.

16. grein Heiðursveitingar KFA eru: Silfurmerki, Gullmerki, heiðursfélagi KFA og heiðursforseti KFA. Stjórn félagsins tekur ákvarðanir um heiðursveitingar og setur nánari reglur um þær. Tilkynna skal um heiðursveitingar á sláttudegi félagsins. Stjórnun deilda og meistaraflokka

17. grein Aðalfundir deilda skulu haldnir fyrir lok janúar ár hvert. Reikningsár deilda er almanaksárið. Með boðun, dagskrá, kjörgengi og atkvæðarétt aðalfunda deilda skal fara eins og um aðalfund félagsins væri að ræða utan lagabreytingaákvæði en aðalfundir deilda hafa ekki heimild til lagabreytinga. Allar deildir félagsins skulu skila samþykktum reikningum deilda minnst tveimur vikum fyrir aðalfund. Stjórn er heimilt að setja vinnureglur sem varða bókhald deilda, bókhaldsskil og uppgjör og víkja deildarstjórn frá störfum ef störf hennar brjóta í bága við reglur um fjárreiður félagsins. Skal stjórn félagsins þá taka við störfum deildarstjórnar þar til hægt er að halda aðalfund viðkomandi deildar og kjósa nýja deildarstjórn. Hafi deild ekki haldið aðalfund innan tilskilinna tímamarka, eða ekki náð að skila samþykktum reikningum fyrir undangengið reikningsár til stjórnar minnst tveimur vikum fyrir aðalfund félagsins, telst deildin hafa vanrækt að halda aðalfund á tilsettum tíma og skal þá stjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

18. grein Stjórn hverrar deildar skal skipuð minnst fimm mönnum, formanni sem kosinn er á aðalfundi viðkomandi deildar og fjórum meðstjórnendum, ásamt tveimur til vara einnig kjörnum á aðalfundinum. Endurskoðandi/skoðunarmenn reikninga félagsins hafa eftirlit með reikningum deilda. Deildarstjórn skiptir sjálf með sér verkum. Kjörtímabil deildarstjórna er á milli aðalfunda viðkomandi deilda. Deildarstjórn getur sett sér og deild sinni vinnureglur brjóti þær ekki í bága við lög félagsins. Deildarstjórn skal halda félagaskrá í samráði við stjórn félagsins.

19. grein Heimilt er að starfrækja meistaraflokka innan félagsins að uppfylltum skilyrðum laga þessara, en einungis utan reksturs hefðbundins barna- og unglingastarfs (í samræmi við kröfur ÍSÍ um aðskilnað þessara rekstrareininga). Rekstur meistaraflokka skal vera bókhalds- og félagslega sjálfstæður og með sér kennitölu. Deildarstjórn getur ein óskað eftir því við stjórn að meistaraflokkar sé starfræktir í þeirri íþróttagrein sem deildina varðar. Stjórn metur rekstrar- og félagslegan grundvöll fyrir slíkum rekstri og veitir eða hafnar heimild til reksturs. Veiti stjórn leyfi til rekstursins skal stjórn félagsins skipa stjórn meistaraflokks samkvæmt tilnefningu deildarstjórnar og ber stjórn mfl ábyrgð á viðkomandi rekstri gagnvart stjórn félagsins. Stjórn félagsins hefur heimild til að setja reglur um samninga og hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd þeirra. Uppgjör vegna reksturs meistaraflokka skal kynnt sérstaklega á aðalfundi félagsins ár hvert en vera hluti af rekstrar- og efnahagsreikningi félagsins. Stjórn meistaraflokks skal leggja fram rekstrar- og tekjuáætlun fyrir hvert keppnistímabil fyrir sig til stjórnar til samþykktar og er hún bindandi fyrir stjórn meistaraflokksins. Stjórn meistaraflokks er óheimilt að skuldbinda félagið með nokkrum hætti nema með samþykki framkvæmdastjóra félagsins.

20. grein Ósk félagsmanna um stofnun nýrrar deildar skal bera fram við stjórn félagsins. Stjórn tekur ákvörðun um stofnun nýrrar deildar á grundvelli markmiða félagsins. Ef engin starfsemi er í deild getur stjórn ákveðið að leggja deildina niður tímabundið eða endalega. Eignir / skuldir viðkomandi deildar verða þá í vörslu stjórnar eða renna í aðalsjóð félagsins.

Önnur ákvæði 20. grein Kraftlyftingafélag Akureyrar er aðili að ÍBA og með aðild ÍSÍ og er félögum skylt að virða lög þeirra.

21. grein Til að félagið verði lagt niður þarf samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi og skal þá stjórnin boða til aukaaðalfundar sem verður einnig að samþykkja tillöguna með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði félagið lagt niður skal afhenda eigur þess til Íþróttabandalags Akureyrar til varðveislu, en ef hliðstætt félag verður stofnað síðar skulu eignir þess afhentar hinu nýja félagi til afnota.

22. gr. Gerist aðili brotlegur við lög og samþykktir félagsins getur stjórn KFA vísað honum úr félaginu. Ákvörðun stjórnar um brottvísun má skjóta til aðalfundar, sem getur ógilt brottvísuna eða staðfest.

23. grein Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt á aðalfundi félagsins og falla þá jafnframt úr gildi fyrri lög félagsins.