Afrekstarf og stefna

Afreksíþróttir eiga sér langa sögu á Akureyri og eru í dag stundaðar samhliða almennings- íþróttum. Afreksíþróttir og almenningsíþróttir nærast hvor á annarri og því er mikilvægt að skapa skilyrði til þess að bæði þessi svið íþrótta geti þróast hlið við hlið. Afreksstefna KFA nær til þeirra sem teljast afreksmenn/-flokkur, framúrskarandi íþróttamenn/-flokkur eða afreksefni/-flokkur skv. skilgreiningu ÍSÍ. Skv íþróttastefnu sinni vill Akureyrarkaupstaður (vill) samhæfa krafta þeirra sem hafa áhuga á afreksíþróttum innan ólíkra íþróttagreina, hlúa að afreksíþróttafólki og byggja upp stuðning við það. Áhersla er lögð á að samnýta krafta og skapa öflugt afreksumhverfi á víðum grunni auk þess að samnýta þá aðstöðu og þjálfaraþekkingu sem til er. Það er til hagsbóta bæði fyrir afreksfólk og hið almenna íþróttafólk.  Afreksíþróttastefnan felur í sér samvinnu milli allra sem koma að íþróttamálum félagsins. Markmiðið er að félagið styðji á eftirtektarverðan hátt við hæfileikaríkt íþróttafólk og verði þekkt fyrir að ala upp afreksíþróttafólk og að laða að einstaklinga og hópa sem vilja taka þátt í (metnaðarfullri) áætlun um að ná árangri. Einhliða áhersla á árangur má þó ekki takmarka möguleika afreksfólks í íþróttum til að lifa heilbrigðu lífi að íþróttaferli loknum. Því er mikilvægt að sameinast um að þroska íþróttamanninn í heild svo menntun, íþrótt og frítími blandist á réttan hátt. Þannig er ungum íþróttamönnum best sköpuð umgjörð til að þroska hæfileika sína.

 

 

Afreksíþróttamenn, efni og skilgreining afreka

Þótt hæfileikar skipti miklu máli og fólk fæðist vissulega með mismikla hæfileika á ákveðnum sviðum er enginn fæddur afreksíþróttamaður. Íþróttamaður þarf að eyða miklum tíma, orku, vinnu, hafa ástríðu, aðstöðu til æfinga og vera umkringdur fólki sem hjálpar honum að ná árangri (Bosscher o.fl.l, 2015).  Það sem skilur á milli íþróttamanna og afreksíþróttamanna sem búa við svipaðar aðstæður og æfa á svipaðan hátt er tíminn sem þeir eyða í æfingar, en þeir sem eyða meiri tíma í æfingar ná betri árangri (Law, Coté, & Ericsson, 2007).

Samkvæmt Ericsson og Lehmann (1996) þarf um það bil tíu ár af æfingum til að ná hæstu stigum mannlegrar getu, hvort sem það er í íþróttum eða á öðrum sviðum. Til þess að geta eytt svo miklum tíma í æfingar þarf sterka áhugahvöt. Áhugahvöt einstaklings stjóronar því hversu hátt hann stefnir og hversu mikið hann er tilbúinn til þess að leggja á sig (Weinberg & Gould, 2010).

Sjálfstraust íþróttamanna og trú þeirra á því hvort þeir hafi stjórn á sínum eigin árangri hefur áhrif á áhugahvöt þeirra (Weinberg & Gould, 2010). Áhrifarík leið til þess að viðhalda og auka áhugahvöt er vel framkvæmd markmiðasetning (Weinberg & Gould, 2010). Fyrir utan þá innri þætti sem nefndir eru hér að ofan hafa ýmisr ytri þættir áhrif á velgengi íþróttamanna. Íþróttamenn þurfa meðal annars tækifæri til þess að rækta hæfileika sína í góðri aðstöðu hjá íþróttafélagi, með þjálfa sem geta leiðbeint þeim ásamt öðru fagfólki til þess að meðhöndla meiðsli, og halda þeim heilbrigðum. Þar að auki þurfa þeir samfélag sem hefur áhuga á íþróttum og sýnir þeim stuðning og veitir þeim góðar fyrirmyndir (Bosscher o.fl. 2015). Einnig þurfa þeir að fá tækifæri til að öðlast keppnisreynslu á stórmótum og smærri mótum (Crespo, Reid, Miley & Atienza, 2003).

Annar Áhrifaþáttur á velgengi íþróttamanna er fjármögnun stjórnvalda eða einkaaðila á afreksíþróttastarfi. Rannsóknir gefa skýrt til kynna að því meiri fjármagn sem stjórnvöld veita í afreksíþróttir því fleiri tækifæri búa þau til fyrir afreksíþróttamenn sína og þeim mun betur gengur þeim (Bosscher o.fl. 2015). Það sem spáir hvað best fyrir um árangur þjóða í íþróttum á alþjóðavísu er hversu mikið fé stjórnvöld setja í afreksstarf (Bosscher, Bingham & Shibli, 2008). Einnig er fjárhagslegur stuðningur stjórnvalda eða einkaaðila við atvinnumannaferil íþróttamanna mikilvægur vegna þess að í fáum íþróttagreinum geta íþróttamenn lifað af íþróttinni einni og sér (Bosscher o.fl., 2015).

 

Sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn og afreksflokka í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu.

Til þess að ná settu marki ber hreyfingunni að setja sér tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber ásamt því að einblína á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Sérstaklega ber að leggja aukna áherslu á að efla þjálfunarþekkinguna, bæði innan einstakra íþrótta og þvert á íþróttastarfið; m.a. með því að mynda teymi fagfólks til að auka þekkingu þjálfara.

 • Um framúrskarandi íþróttamann er fyrst að ræða þegar einstaklingur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum.
 • Afreksmaður er hver sá íþróttamaður sem stenst ákveðna viðmiðun í viðkomandi grein.
 • Afreksefni teljast þeir íþróttamenn/flokkar sem ekki hafa náð jafn langt en taldir eru með markvissri og mikilli þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu.

  Markmiðasetning

Rannsóknir hafa sýnt að markmiðasetning bætir frammistöðu hjá íþróttamönnum. Skýr markmið hjálpa íþróttamönnum að auka þrautsegju sína, gerir þá staðfastari í að ná árangri og yfirstíga hindranir sem á vegi þeirra verða. Þar fyrir utan eykur það sjálfstraust íþróttamanna að ná erfiðum markmiðum, sem eykur áhugahvöt þeirra (Weinberg & Gould, 2010). Til eru nokkrar tegundir markmiðasetningar fyrir íþróttamenn og ættu íþróttamenn að nýta sér þær allar til að hámarka árangur sinn. Mikilvægt er að markmið séu mælanleg og þeim sé settur ákveðinn tímarammi til að þau skili tilskildum árangri (Weinberg & Gould, 2010).

Tegundir markmiða:

Niðurstöðumarkmið – markmið sett á ákveðna niðurstöðu í keppni, t.d. 1. sæti á íslandsmóti
Frammistöðumarkmið – markmið sett á ákveðna frammistöðu íþróttamanns, t.d. lyfta 200 kíló í hnébeygju.
Ferilsmarkmið – markmið sett á að bæta ákveðna hegðun eða atriði sem tengjast þjálfun, t.d. halda bakinu beinu þegar réttstöðulyfta er framkvæmd eða borða hollan morgunmat á hverjum degi.

Niðurstöðumarkmið eru nauðsynleg þegar langt er í mót til þess að skapa ákveðna stefnu fyrir íþróttamann, en þau ættu þó ekki að vera aðal efni markmiðastefningarinnar vegna þess að árangur og gengi andstæðinga, sem ekki fæst stjórnað af íþróttamanninum sjálfum, hefur áhrif á niðurstöður móta. Stærsti hlut markmiðasetningar íþróttamanna ættu því að vera frammistöðu og ferilsmarkmið, þar sem íþróttamaðurinn hefur stjórn á aðstæðum (Weinberg & Gould, 2010). Markmið sem íþróttamenn setja sér þurfa að vera sérstæk og nákvæm ásamt því að vera erfið en jafnfram raunsæ. Nauðsynlegt er að setja sér bæði langtíma og skammtíma markmið, þar sem langtíma markmið er bútað niður í smærri og viðráðanlegri einingar (Weinberg & Gould, 2010). Sýnt hefur verið fram á það að langtímamarkmið ein og sér bæti ekki frammistöðu (Kane, Baltes, & Moss, 2001). Langtíma markmið marka stefnu en skammtíma markmið leiða mann áfram veginn að langtíma markmiðinu (Zeljka Vidic, 2011).

Markmiðastigi

Við markmiðasetningu er hægt að hugsa sér stiga þar sem langtímamarkmið er efst og núverandi staða neðst í stiganum. Hver trappa á leiðinni á toppinn er svo skammtímamarkmið sem leiðir íþróttamanninn á toppinn (Weinberg & Gould, 2010). Þessi aðferð við markmiðasetningu kallast markmiðastigi og hefurverið notuð fyrir afreksíþróttamenn með góðum árangri (Weinberg & Gould, 2010). Í bók Weinberg og Gould (2010) er því lýst hvernig markmiðastigi var notaður fyrir krakka á aldrinum 8-11 ára sem æfðu listhlaup á skautum. Stiginn var prentaður út á plakat með leiðbeiningum um hvaða færni þyrfti að ná til að komast uppá næstu tröppu eða á næsta stig. Eftir að færni var ná að hverju sinni færðust krakkarnir upp um eitt þrep í stiganum og fengu límmiða límdan við það þrem sem þau kláruðu. Stigann má sjá á mynd 1. hér fyrir neðan

 • Þekkt þrepaskiptkerfi í lyftingum

Þekkt er að búa til þrepaskipt flokkunarkerfi innan lyftinga sem skipar íþróttamönnum á mismunandi þrep eftir getu (Drechsler, 2012; Everett, 2014; Takano, 2012). Sér þrepaskipting er fyrir hvern þyngdarflokk fyrir sig og viðmiðin á hverju þrepi gefin upp sem samanlögð þyngd í snörun og jafnhendingu. Eitt slíkt kerfi, það fyrsta af sinni tegund, er upprunið í Sovét ríkjunum á sjöunda áratugi síðustu aldar (Drechsler, 2012). Það innihélt níu þrep, þar sem á efsta þrepi voru allra bestu lyftingamenn heims, en á þessum tíma voru Sovét ríkin gríðarlega framarlega í heiminum í lyftingum. Efstu sex þrepin voru fyrir fullorðna og náðu niður í byrjenda þyngdir, en neðstu þrjú þrepin voru fyrir unglinga. Kerfinu var ekki haldið við og uppfært með hækkandi heimsmetum og er því orðið úrelt í dag. Bandaríska Lyftingasambandið hefur nýlega útbúið þrepaskipt kerfi (e. classification system). Í því kerfi eru ellefu stig, þar sem á efsta stigi er miðað við bronsverðlaunaárangur á heimsmeistaramótum. Næsta stig fyrir neðan er 95% af þeirri tölu og svo lækkar þyngdin um 5% af efsta stigi þangað til á neðsta stigi þar sem miðað er við 50% af efsta stigi (Drechsler, 2012). Lyftingaþjálfarar eru yfirleitt með þrepaskipt kerfi fyrir sína iðkendur. Í þeim kerfum eru viðmið fyrir snörun og samanlagðan árangur eftir sérhæfingu hvort fólk sé að keppa í öllu (e. Multidimensional), eingöngu kraftlyftingum (með búnaði), eingöngu (klassískum), eingöngu réttstöðulyftu (með og án búnaðar) eða eingöngu bekkpressu (með og án búnaðar) sem og viðmið fyrir þá þyngd sem einstaklingur þarf að geta lyft hverju þrepi. Á efsta stigi í kerfinu eru bestu lyftingamenn heims eða þeir efstu á heimsmeistaramótum og ólympíuleikum, en á neðsta stigi eru viðmið sem eiga við byrjendur í íþróttinni. Þrepaskipt flokkunarkerfi sem þessi hafa marga kosti. Ef íþróttamenn eru skipaðir á þrep er auðvelt að bera kennsl á framúrskarandi árangur bæði íþróttamanna og þjálfara (Drechsler, 2012). Það er hægt að skipuleggja þjálfun þannig að hún sé viðeigandi fyrir íþróttamennina eftir því á hvaða stigi þeir eru, en mismunandi er hvernig þjálfun skuli háttað á hverju stigi fyrir sig (Takano, 2012). Með þessum hætti er einnig hægt að láta íþróttamenn óháð þyngdarflokkum eða kyni, en á sama getustigi (þrepi) æfa saman og keppa sín á milli (Takano, 2012). Þá er einnig hægt að nota stigakerfið til þess að ákveða úthlutun styrkja. Þrepaskipt kerfi í lyftingum eins og þessi sem nefnd eru hér að framan búa til markmið fyrir lyftingamenn og marka fyrir þá stefnu sem leiðir til aukinnar áhugahvatar. En eins og áður var fjallað um skiptir áhugahvöt og markmiðasetning miklu máli í afreksíþróttum (Weinberg & Gould, 2010).

Þarfagreining íþróttarinar

Tilgangur þarfagreiningarinnar er að greina hvaða þættir líkamlegs atgervis eru mikilvægir til að ná árangri í lyftingum. Það er mikilvægt að átta sig á kröfum hverrar íþróttar fyrir sig og forgangsröðun þeirra til að tryggja að áherslur í þjálfun séu á mikilvægustu þættina svo tími og orka fari ekki til spillis (Everett, 2012). Helstu líkamlegu eiginleikar sem lyftingamenn þurfa að búa yfir eru kraftur (e. power), styrkur (e. strength), úthald (e. endurance) og liðleiki (e. flexibility) (M. H. Stone, Pierce, Sands, & Stone, 2006). Auk þessarra líkamlegu þátta þarf að kunna rétta tækni og hafa góða samhæfingu, hreyfistjórn og nákvæmni við framkvæmd hreyfinga (Everett, 2009).

Kraftur

Kraftur er sá þáttur sem hefur mest áhrif á árangur í lyftingum (M. H. Stone o.fl., 2006) (Everett, 2009; Urso, 2011). Krafturinn sem myndast við lyftingar er myndaður í fótleggjum og mjöðmum (M. H. Stone o.fl., 2006), en mestur kraftur myndast í lok á hreyfingar þegar stönginn er rétt fyrir ofan mið læri, þegar mjöðm, hné og ökklar (e. triple extension) eru í fullri réttu (Everett, 2012; Urso, 2011). Vegna þessa mikla krafts sem myndast við lyftingar er vinsælt að nota þær sem hluta af þjálfun annarra íþróttamanna en kraftur er einnig mikilvægur þáttur í öðrum íþróttum (Chiu & Schilling, 2005). Langflestir þjálfarar íþrótta á hæsta stigi í Bandaríkjunum notast við lyftingar til þess að auka kraft íþróttamanna sinna (Hori o.fl., 2008).

Styrkur

Það segir sig sjálft að til þess að ná árangri í íþrótt sem gengur út að lyfta þungum hlutum þarf að búa yfir styrk. Það þarf að sterkan líkama til þess að lyfta. Kraftmyndun sem einstaklingur nær er að miklu leyti háð hámarksstyrk (Hori o.fl., 2008).

 

Úthald

Þótt lyftingar séu ekki úthaldsíþrótt í hefðbundnum skilningi og það komi mörgum á óvart að lyftingamenn þurfi úthald, þá er það engu að síður mikilvægur eiginleiki fyrir lyftingamann að búa yfir. Það er mikilvægt fyrir lyftingamenn að hafa úthald til að geta endurtekið hreyfingar oft með mjög miklum krafti, innan sömu æfingarinnar. Þetta er gjarnan kallað háákefðaræfingaúthald (e. high-intensity endurance) (M. H. Stone o.fl., 2006). Á æfingu og í móti þarf lyftingamaður að geta tekið margar lyftur á frekar stuttum tíma og verið fljótur að jafna sig á milli. Við framkvæmd hreyfinga notar einstaklingur aðallega phosphagen orkukerfið (e. phosphagen energy system) (Plisk, 1991) en í endurheimt milli setta og eftir æfingar notast einstaklingur við oxun og glycolitýska orkukerfið (e. oxidative og glycolytic energy systems) (Schuenke, Mikat, & McBride, 2002). Í grein (Chiu & Schilling, 2005) segir að á hefðbundinni lyftingaræfingu fer púls lyftingamanna hæst upp í 96% af hámarkspúls og meðal hjartsláttartíðni er 86% af hámarkspúls yfir æfinguna. Lyftingamaður þarf því að hafa gott úthald til að geta tekið sem mest á því á æfingum og verið sem fljótastur að jafna sig bæði milli setta og milli æfinga.

Liðleiki

Lyftingar krefjast mikils liðleika miðað við aðrar íþróttir og sérstaklega mikils miðað við aðrar íþróttir sem reyna mikið á styrk (Everett, 2009). Mjaðmir, axlir, ökklar og úlnliðir þurfa að geta farið fullan hreyfiferil óhindrað svo hægt sé að beita sér rétt við lyfturnar (Everett, 2009). Það ætti því að vera forgangsatriði fyrir einstakling sem er á byrjunarstigi í lyftingum að hafa nægan liðleika til þess að tryggja rétta tækni, líkamsbeitingu og koma í veg fyrir meiðsl. Lyftingar hafa oft verið bendlaðar við mikla meiðslahættu en í raun eru meiðsli í lyftingum sjaldgæfari en í mörgum öðrum íþróttum svo sem körfubolta, fótbolta og fimleikum (Hamill, 1994; Hedrick & Wada, 2008). Í rannsókn Byrd, Pierce, Rielly og Brady (2003) þar sem fylgst var með þjálfun barna í ólympískum lyftingum voru meiðsli óalgeng.

Þarfagreining æfingaraðstöðu

Þegar horft er fram í tímann fyrir ört vaxandi íþróttagrein er mikilvægt að hugsa sig vandlega um. Hversu stórt getur félagið orðið? Í dag eru rúmlega 700 félagsmenn og þar af 330 virkir, það eru yfir 20 æfingahópar og mótahald mjög reglulegt. Tiil að geta þjónustað þennan hóp hvað varðar skipulag og aðkomu hentar þurfa að vera til áætlanir um útbreiðslu og möguleikar á þennslu. Samhliða því að sjá fyrir því að mæta ört stækkandi hópi þarf að vera vakandi fyrir samdrætti í starfi. Því má aðstaðan heldur ekki verða of mikil, of stór eða þung í rekstri. Það mikilvægasta er að það þarf að vera rekstrargrundvöllur til lengri tíma.

Miðað við þá hugsjón og markmið sem við höfum markað innan félagsins verður þetta sama fyrirkomulag. Um 5% aukning iðkenda á milli tímabila næstu 5 árin (frá 330, mars 2017, til 440, september 2022). Það er á meðan barnahópar og þjónusta við aðrar íþróttagreinar er að taka við sér. Eftir það verður fjöldi iðkenda takmarkaður og biðlistar notaðir. Þetta viðmið er byggt á dreifingu iðkendafjölda og æfingarýmis. Þarfagreiningar benda til að félagið getur ekki minnkað við sig til að viðhalda sama þjónustustigi.

Miðað við fjölgun iðkenda í yngriflokkastarfi félagsins og uppbyggingu úrvalshóps lyftingamanna er hægt að gera ráð fyrir miklum framförum í gæðum innan félagsins sem styðja við íþróttirnar sem þar eru stundaðar. Því þarf téð aðstaða að getað þjónað sérhæfðum æfinga og keppnislegum þörfum þess hóps. Þess vegna er mikilvægt að fjármunum félagsins sé markvisst varið í að bæta innviði til að koma til móts við þær þarfir.

Í kraftlyftingum og Ólympískum lyftingum hefur bæði orðið uppsveifla á keppendafjölda á landsvísu og mótum hefur fjölgað. Okkur er mikið í mun að spila lykilhlutverk í mótahaldi. Bæði stórum og smáum þannig tækifærin séu fjölmörg bæði til að stíga sín fyrstu skref og setja alþjóðlegleg met. Þar liggja mörg tækfæri. Mótahald er stór hluti að uppbyggingu félagsins og auðvelt að áætla ef beint millilanda flug til Akureyrar verður að veruleika að alþjóðlegt mótahald verður reglulegt. Mikil reynsla býr á bakvið mótahald félagsins og hefðin er löng. Þarfagreiningin er fjölþætt útskýring á hverju rými, aðbúnaðarins sem það þarfnast, og hvernig rýmið er notað eða hugsanlega hægt að nota. Myndræn útfærsla fylgir útskýringum.

Afrekstefnur

Árangur íþróttamanna ætti ekki að vera tilviljunum háður heldur árangur skipulagðrar vinnu. Það skiptir máli að móta umhverfi fyrir íþróttamenn til að rækta hæfileika sína og ná langt í íþróttum. Afreksstefna er einskonar langtímamarkmið viðkomandi íþróttagreinar; hún ákvarðar þá leið sem sérsambandið og aðilar þess ætla sér að starfa eftir og hvernig nýta megi sem best fjármuni, aðstöðu, búnað og mannauð viðkomandi íþróttagreinar til að ná settum markmiðum (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, 2014). Ekki er þó hægt að hafa stjórn á öllum þáttum í umhverfinu sem skipta máli en þáttum eins og stærð samfélagsins, hversu vel statt fjárhagslega samfélagið er og stjórnunarháttum landsins getur íþróttamaður ekki stjórnað þótt þeir skipti gríðarlegu máli í þróun íþróttamannsins. Afrekstefna ætti að ganga út á það að búa til sem best umhverfi fyrir íþróttamanninn með tilliti til þeirra þátta sem ekki er hægt að stjórna (Bosscher o.fl., 2015).

Íslandi

Á Íslandi er Íþróttasamband Íslands æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi og æðsta opinbera stofnunin þegar kemur að íþróttastarfi (Lög íþrótta- og Ólympíusambands Íslands 2015, 2015). En virkar og vel skipulagðar opinberar stofnanir er mikilvægur þáttur í árangri þjóða á alþjóðavísu (Bosscher o.fl., 2015). ÍSÍ gerir þá kröfu til sérsambanda og félaga sem undir það heyra að þau móti sér afreksstefnur. ÍSÍ skilgreinir hvernig þeir vilja hafa afreksstefnur sérsambanda og gefa út leiðbeiningar um hvernig þær skulu vera upp settar. Afeksstefna sérsambands á að vera aðgengileg öllum og ættu íþróttafélög að geta búið til sínar eigin afreksstefnur með stefnu sérsambandsins sem þau heyra undir til hliðsjónar. Það er mikilvægt að stefnan sé ekki eingöngu áætlun sérsambandsins heldur á hún að fjalla um almennt afreksstarf í viðkomandi íþróttagrein og skilgreina hlutverk íþróttafélaga og deilda (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.). ÍSÍ tilgreinir fimm aðalþætti sem afreksstefnan á að fjalla um. Þeir þættir sem ÍSÍ tilgreinir eru: almenn þátttaka og hæfileikamótun, þjálfarar, fagteymi, og aðstaða og fjármögnun (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.).

Almenn þátttaka og hæfileikamótun:
Afreksstefna þarf að koma inn á hversu margir iðkendur stunda íþróttina, í hve mörgum félögum og hvar á landinu og svara þeirri spurningu hvort fjölga þurfi iðkendum til að tryggja áframhaldandi afreksstarf. Í rannsókn (Bottenburg, 2002) fundust tengsl milli fjölda iðkenda íþrótta í hverju landi og til hve margra verðlauna landið vann á Ólympíuleikunum í Barcelona og Sydney. Svipuð tengsl var hægt að finna hjá fjölda tennisspilara í 40 löndum og alþjóðlegum árangri þeirra (Bosscher o.fl., 2015).

Þá þarf að ræða í stefnunni hvernig koma eigi auga á efnilegt fólk og hvað skuli gera til þess að gera efnilega íþróttamenn að afreksíþróttamönnum (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.). Það að geta fundið unga hæfileikaríka íþróttamenn er sérstaklega mikilvægt í löndum með fáa íbúa (Bosscher o.fl., 2015). Þjálfarar: Í afreksstefnu ætti að fjalla um leiðir til að efla hæfni og getu þjálfara því þeir eru án efa einn mikilvægasti þáttur afreksstarfsins. Fjalla þarf um í afreksstefnu hvernig stöðugar framfarir og endurmenntun þjálfara afreksfólks skuli tryggð, t.d. með því að gera ákveðnar kröfur til þjálfaranna, til dæmis að þeir sæki sér áframhaldandi menntun eða haldi þekkingu sinni við (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.). Fagteymi: Með fagteymi er átt við fagfólk á sviði íþrótta- og lífeðlisfræða og heilbrigðisfræða sem geta bætt umhverfi afreksíþróttafólks. Í stefnunni þarf að koma fram greining á því hverskyns fagfólk þarf að koma að starfinu og að hve miklu leyti, skilgreina hlutverk þeirra og þeirrar vinnu sem ætlast er til af þeim (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.). Aðstaða: Afreksíþróttamenn þurfa að geta æft og keppt við sambærilegar aðstæður og eru á stórmótum. Stefnan þarf að fjalla um hvaða leiðir sambandið kemur til með að fara í því að tryggja nægilega góða aðstöðu, en þá þarf að hafa sveitarfélög með í ráðum (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.). Fjármögnun: Afreksíþróttir eru oft á tíðum kostnaðarsamar og geta sambandsins til að sinna verkefnum ræðst af þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar. Fjármögnun afreksstarfsins er því eitt mikilvægasta umfjöllunarefni afreksstefnunnar. Fjárhagsáætlanir eru samþykktar á sérsambandsþingum. Í stefnunni skal rætt hvernig nýting fjármagnsins kemur til með að vera og hvaða kostnaði félög og einstaklingar þurfi sjálf að standa straum af (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, e.d.).

Afrekstefna kraftlyftingafélags Akureyrar

Í þessum kafla verður fjallað um hvernig afreksstefna Kraftlyftingafélags Akureyrar er sett upp. Eins og áður kom fram eru hæfileikar einir og sér ekki nóg til þess að íþróttamaður nái árangri á heimsmælikvarða heldur þarf aðstæður sem styðja hann á leið sinni á toppinn og koma í veg fyrir brottfall hans úr íþróttinni (Bosscher o.fl., 2015). Afreksstefnan markar þá leið sem félagið á að fara í því að búa til umhverfi fyrir íþróttamenn sína þar sem þeir geta hámarkað árangur sinn í lyftingum. Stefnan mun fjalla um þjálfun, æfingar, mótshald, aðstöðu og fleira. Afreksstefnan mun innihalda þrepaskipt markmiðakerfi sem býr til langtíma og skammtímamarkmið fyrir íþróttamanninn, en slíkt er mikilvægt fyrir íþróttamanninn til að ná hámarks árangri (Weinberg & Gould, 2010).

Íþróttamaðurinn þarf að eyða miklum tíma, orku og vinnu í æfingar og undirbúning til að ná árangri (Bosscher o.fl., 2015). Markmiðasetning eykur þrautsegju og staðfestu íþróttamanna og hjálpar þeim að yfirstíga hindranir (Weinberg & Gould, 2010) og er því þrepaskipt markmiðakerfi mikilvægt til þess að íþróttamaðurinn gefist ekki upp á leið sinni á toppinn. Eins og afreksstefna KRAFT ætti afreksstefna lyftingafélagsins og þrepaskipta markmiðakerfið að vera uppfært á fjögurra ára fresti eða fyrir hvert ólympíuár (Lög Kraftlyftingasambands Íslands, e.d.)

Þrepaskipt markmiðakerfi

Í þrepaskipta markmiðakerfinu verða 9 þrep. Í kerfinu eru þrjú ákveðin stig sem eru fastar og hin stigin þar á milli eru ákvörðuð út frá þeim. Fastarnir eru efsta stigið, áttunda stigið og svo neðsta stig stefnunnar. Á myndum 3 og 4 á næstu síðu neðan má sjá þrepaskipta markmiðakerfið fyrir karla og konur.

 

 

 • Stig 1 (KAN- C, C og KAN-B

Fyrsta stigið eru iðkendur sem hafa enþá ekki lokið grunnþjálfun og eru óflokkaðir. Þegar neðsta stig var ákvarðað var það gert með tilliti til þess að flestir byrjendur í lyftingum eru á fullorðins aldri.

 

KAN-C eru iðkendur sem eru óflokkaðir og hafa ekki lokið grunnþjálfun.
Áherslur eru undirstöðu atriði í lyftingum, almenn alhliðar kennsla um ástands-, liðleika-, kraft- og styrktarþjálfun.

 • 4 klukkutímar í viku við æfingar
 • ~100-120 lyftur á viku (4000-5000 á ári)

C eru iðkendur búnir að ljúka grunnþjálfun og geta tekið þátt á opnum félagsmótum.
Iðkandi ætti að hafa öðlast grundvallar þekkingu á hvernig hann/hún ætti að æfa kraftlyftingar. Áherslur á þessu stigi er að undirbúa iðkenda fyrir sitt fyrsta mót. Þjálfari finnur fyrir hann æfingahóp eða útbýr fyrir hann æfingar prógramm eftir svipuðu sniði og hann var á þegar hann var í grunnþjálfun (einfalt linear progression SS/KFA útfærslur).

 • 6 klukkutímar á viku við æfingar
 • ~200 lyftur á viku (8000 á ári)

KAN- B eru iðkendur með lágmörk til að keppa á Akureyrarmeistaramótum og lágmarkamótum sérsambanda.
Áherslur á þessu stigi er að undirbúa iðkenda til að æfa meira sjálfstætt og hjálpa honum að finna einstaklings miðaða æfingaaðferð sem hentar honum.

 • 9 tímar á viku
 • ~300 lyftur á viku (12000 á ári)

 

 • Stig II (B, KAN-A)

Iðkendur á öðru stigi æfa meira sjálfstætt og geta fylgt viku, mánaðar og ársáætlun þjálfara félagsins. Á þessu stigi ætti iðkandi að geta sett sér langt tímamarkmið á mótum og við æfingar.

B eru iðkendur með lágmörk til að keppa á B- Íslandsmótum (klassískum og sérgreinamótum) sérsambanda.
Áherslur á þessu stigi eru að finna keppnisáherslur iðkenda og undirbúa hann undir sitt fyrsta Íslandsmót.

 • 12 tímar á viku
 • ~400 lyftur á viku (16000 á ári)

KAN-A eru iðkendur með lágmörk til að keppa á öllum innlendum meistaramótum sérsambanda.
Áherslur á þessu stigi er að fjölga tíðni og umfang sérhæfingu æfinga.

 • 14 tímar á viku
 • ~450-500 lyftur á viku (18000 á ári)
 • Stig III – Landsliðið (A, KAN-Ú, Ú og MS)

Iðkendur á þriðja stigi eru afreksmenn. Á þessu stigi ætti þjálfun að vera orðinn alfarið einstaklingsmiðuð. Iðkendur á þessu stigi þurfa fullt aðgengi að þjálfurum, fagteymi og öllum þeim styrkjum sem félagið getur veitt þeim. Full ástundun er forsenda fyrir árangri á þessu stigi. Sú þyngd sem þarf að lyfta til að þess að vera tekinn inn í landsliðið (C-stig landsliðsins) er sjötta stigið.

A er skilgreindur afreksmaður með lágmörk til að keppa á minni alþjóðlegum mótum (Norðurlandamótum, Smáþjóðaleikum, og opnum alþjóðlegum mótum) og varamaður í opnum landsliðs verkefnum.
Áherslur á þessu stigi er að finna út umfang, tíðni og hlutfall sérhæfinga sem iðkandi svarar best við. Kynnt iðkanda fyrir fagteymi og hvernig félagið getur hjálpað honum að ná lengra.

 • 18 tímar á viku
 • ~500-700 lyftur á viku (20000+ á ári)

KAN-Ú er framúrskarandi afreksmaður með lágmörk til að keppa á evrópumótum í opnum flokki.
Áherslur eru einstaklingsbundnar – en almennt aukið umfang og undirbúningur fyrir fulla ástundun.

 • 22 tímar á viku
 • ~800-1200 lyftur á viku (35000+ á ári)

Ú er meðal þeirra bestu í heiminum. Afreksmaður hefur þáttökurétt á öll alþjóðlegmót í sinni íþróttagrein og fær fulla styrki frá sérsambandi til að geta keppt með Íslenska landsliðinu.
Áherslur eru einstaklingsbundnar – en almennt þarf að ná A- landsliðslágmörkum fyrir öll mót til að vera á þessu stigi.

 • 26 tímar á viku
 • ~1000-1400 lyftur á viku (40000+ á ári)

MS meðaltalsárangur 1-5. sæti á heimslistanum síðustu fjögur ár er níunda og efsta stig þrepaskipta markmiðakerfisins, því það er eina leiðin fyrir einstakling til þess að gulltryggja sér pláss á heimsleikana/ólympíuleika. Þegar sætum er úthlutað á heimsleikana/ólympíuleika geta landslið unnið sér inn pláss á hinum ýmsu úrtökumótum. Þegar öllum sætum hefur verið úthlutað til landsliða fer fram einstaklingsval en þá eru þeim sem eru í efstu sætunum á heimslistanum boðinn keppnisréttur („Qualification System – Games of the XXXI – Wraclow 2017“, 2014). Áherslur eru einstaklingsbundnar. Full ástundun er forsenda fyrir árangri á þessu stigi.

 • 30 tímar á viku
 • ~1200-1600 lyftur á viku (45000+ á ári)

Útfærsla markmiðastigans
Markmiðastiginn skal vera prentaður á plakat og stillt upp í æfingaaðstöðu lyftingafélagsins þar sem hann er vel sýnilegur. Félagið skal halda utan um það á hvaða stigi hver iðkandi er og halda skrá um það sem aðgengileg er iðkendum félagsins. Félagið ætti að veita viðurkenningar til iðkenda sinna þegar þeir fara upp um þrep í markmiðastiganum. Stjórn félagsins ákveður fyrir hvert tímabil hvernig viðurkenningunni skal háttað, til dæmis tilkynning með mynd á heimasíðu félagsins, límmiða á til þess gert plakat í æfingasalnum eða armband í lit þrepsins sem komist er á. Umbuna ætti fremstu afreksmenn félagsins á hverjum tíma. Það er stjórnarinnar að meta að hverju sinni með hvaða hætti það er gert og hversu margir eru umbunaðir. Til dæmis væri hægt að fella niður æfingagjöld fremstu iðkendanna eða veita þeim styrki til keppni á stærri mótum, æfingafatnað eða annað. Á móti hefðu þeir ákveðnar skyldur gagnvart félaginu, til dæmis að vera til fyrirmyndar fyrir aðra iðkendur, tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og sinna æfingum vel eftir því hvað stjórnin metur viðeigandi að hverju sinni.

Barna- og unglingastarf

Annnar markmiðastigi gildir fyrir barna- og/eða unglingastarf. Hægt að kynna sér markmið og áherslur m.v. aldurshópa í handbók félagsins.

Þjálfun

Þegar þjálfun er skipulögð skal hafa þarfir íþróttarinnar, sem fjallað var um í þargreiningunni hér að leiðarljósi til þess að þjálfun skili sem mestum árangri. Helstu líkamlegu þættirnir sem skipta lyftingamenn máli eru kraftur (e. power), styrkur (e. strength), úthald (e. endurance) og liðleiki (e. flexibility) (M. H. Stone o.fl., 2006).

Kraftur og styrkur
Kraftur og styrkur eru nátengdir þættir og verður fjallað um þá saman hér. En eins og áður hefur komið fram er kraftmyndun einstaklings að miklu leyti háð hámarksstyrk hans (Hori o.fl., 2008). Það er sterkt samband milli mikils hámarksstyrks í hnébeygju og þess að geta tekið í öðrum greinum. Hnébeygja er því mikilvæg hreyfing fyrir lyftingar enda má finna mikið af henni í flestum æfingakerfum sem útbúin eru fyrir lyftingamenn. Þessu er Rippetoe (2011) sammála, en samkvæmt honum er það að gera hnébeygju í fulla dýpt áhrifaríkasta leiðin til þess að byggja upp styrk og kraft vöðva í neðri hluta líkamans. Réttstöðulyfta (e. deadlift) er önnur æfing sem mikilvægt er fyrir lyfingamenn að gera (Rippetoe, 2011). Réttstöðulyfta þjálfar styrk í baki, nánar tiltekið mjóbaki, betur en nokkur önnur æfing. Helsta hlutverk mjóbaksvöðva er að halda neðra bakinu í stöðu svo að hægt sé að flytja kraft frá mjöðmum og fótleggjum í gegnum búkinn og í þá þyngd sem unnið er með (Rippetoe, 2011). En það geta haldið stöðu á hryggnum meðan lyftur eru framkvæmdar er mikilvægt til þess að koma í veg fyrir meiðsli (Jones, Pierce, & Kellan, 2012; Urso, 2011).

Úthald

Þar sem meðal hjartsláttartíðni á lyftingaræfingu er 86% af hámarksspúlsi og púlsinn fer nálægt 100% á köflum er mikilvægt fyrir lyftingamenn að hafa gott úthald til þess að endast æfinguna (Chiu & Schilling, 2005). Sú tegund úthalds sem lyftingamenn þarfnast er gjarnan kallað háákefðaræfingaúthald (MH Stone 2006), en til að tryggja að lyftingamenn hafi nægt úthald þarf þolþjálfun að vera hluti af æfingaáætlun þeirra.

 

Liðleiki

Tvær ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur geti ekki framkvæmt ákveðna hreyfingu, annars vegar getur verið að hann skilji ekki hvað hann eigi að gera eða búi ekki yfir tækni við að beita sér við framkvæmd hreyfingarinnar. Hins vegar getur verið að hann búi ekki yfir þeim liðleika til að komast í þær stöður sem hreyfingin krefst (Starett & Cordoza, 1994). Hnébeygja, bekkpressa og réttstöðulyfta krefjast mikils liðleika til að hægt sé að framkvæma þær á öruggan hátt og árangursríkan hátt (Everett, 2009). Eftir að tækni og beiting hefur verið kennd í grunnþjálfun er því mikilvægt að áður en lengra er haldið með þjálfunina að hafa viðmið fyrir liðleika. Þær stöður, samkvæmt Everett (2009), sem lyftingamaður þarf að geta komist í eru þessar:
– Botnstaða í hnébeygju og haldið hrygg í beinni stöðu á meðan
– Hallað sér fram frá mjöðm með beinar fætur og haldið beinni stöðu á hrygg á meðan
– Rétt beina handleggi upp í loft þannig hendurnar séu beint upp frá öxlum og haldið beinni stöðu á hrygg á meðan Nauðsynlegt er fyrir öryggi iðkenda að gerð sé krafa um þennan liðleika á fyrstu stigum markmiðastigans.

 Fagteymi

Starfandi skal vera fagteymi KFA sem mannað er fagfólki á sviði heilbrigðisfræða og íþróttasálfræði. Það tryggir að komi upp meiðsli eða þörf á fyrirbyggjandi aðgerðum vegna landsliðsmanns er hægt að koma viðkomandi undir hendur lækna, sjúkranuddara, íþróttasálfræðing osfrv. innan 24 klst. frá því að viðkomandi atvik kom upp.

Markmið

Markmiðið afreksstefnu KFA er að eiga breiðan hóp afreksmanna í fremstu röð í öllum íþróttagreinum félagsins. Skapa framúrskarandi afreksumhverfi, góða æfinga- og keppnisaðstöðu og skapa sérstaka aðhlynningu fagmanna eins og lækna, sjúkranuddara, næringarráðgjafa og sálfræðinga. Einnig að halda úti góðum og vel menntuðum þjálfurum fyrir iðkendur svo þeim sé skapaður sá grundvöllur sem þeir þurfa til að ná framförum sem miðast við að komast úr hópi efnilegra íþróttamanna yfir í afreksíþróttaefni.

Markmið þjálfunar

Innan tíu ára hafi félagið byggt upp áhuga- og atvinnulið í fremstu röð. Fjárhagsleg geta félagsins hafi þá styrkst til muna vegna aukinna umsvifa og samhliða möguleikar til þess að styðja bæði einstaklinga, hópa og þjálfara enn frekar.

Markmið árangurs

Markmið félagsins er að fjölga afreksmönnum í A, KAN Ú, Ú og MS. Svo það sé hægt er mikilvægt að vinna markvisst í  leit af nýjum afreksefnum (KAN-C, C) og hæfileikamótun afreksefna (KAN-B, B, KAN-A).

Félagið vill geta haft fullskipað keppnislið og því er mikilvægt að hlúa sérstaklega að ungum og efnilegum, og iðkendum sem gætu fyllt mikilvægar stöður í liðinum.

Mælikvarðar

Mælikvarðar sem notaðir skulu við mat á árangri hvers árs, teknir saman 1. des. eru þessir að lágmarki:
1. Fjöldi afreksmanna –
a. Í hveri íþróttagrein eða sérgrein –
b. Í hverjum árgangi, skipt eftir kynjum
2. Fjöldi afreksefna
a. Í hveri íþróttagrein eða sérgrein –
b. Í hverjum árgangi, skipt eftir kynjum
3. Meðaltals rankings
a. 10 efstu karla og kvenna
b. 25 efstu karla og kvenna
c. 50 efstu karla og kvenna
d. 100 efstu karla og kvenna
4. Fjöldi og staða á heimslista kvenna
5. Fjöldi og staða á heimslista karla
6. Fjöldi á mótaröðum í Evrópu og/eða Bandaríkjunum.

Markmið félagsins

Félags og æfingaheimili KFA á að vera iðandi af lífi líkt og stuðla þarf að aukinni notkun félagsmanna af heimilinu. Aðstaða iðkennda á að vera eins og best verður á kosið og skal uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til þess að æfa og keppa í fremstu röð.  Í þeim mannvirkjum sem KFA hefur aðgang að skulu iðkenndur og aðstandendur ávallt upplifa sig á heimavelli og sem mikilvægan hluta í stafsemi félagsins.

Markmið mótahaldi

Við höfum nú þegar brúað bilið milli Akureyrar og Skandinavíu með NM 1989 og NM 2013. Hefðinn og reynslan á bakvið mótahald og stórmótahald er til staðar. Það þarf að fjölga töluvert mótum og auka aðgengi á öllum keppnistigum.  Akureyri er fallegasti bær landsins og innviðir eins og þeir gerast bestir í heiminum. Með aukningu á gistiplássum og aðgengi frá Keflavík eða öðrum alþjóðlegum flugvöllum ætti að vera raunhæft að gera alþjóðlegt mótahald reglulegt.

Áætlun árangur

Áætlun mótahaldi